UPPLIFUN

Afþreying

Húsavík og nágrenni býður upp á mikið úrval afþreyingar, bæði náttúrlegrar og menningarlegrar. Við mælum með að þú skoðir sem flest, það er af nógu að taka!

Fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðir á Íslandi hófust frá Húsavík 1995 og ár frá ári fjölgar því fólki sem leitar til hafs til þess að sjá þessi tignarlegu dýr koma upp úr djúpinu til að anda. Skjálfandaflói virðist búa yfir góðum aðstæðum fyrir þessa risa undirdjúpanna og því má í flóanum finna fjölda hvala af ýmsum tegundum, mest þó hrefnu, hnúfubak og höfrunga. Þess vegna heimsækja þúsundir ferðamanna víðs vegar að úr heiminum Húsavík ár hvert til að skoða hvali á Skjálfanda. 

Auk kjöraðstæðna frá náttúrunnar hendi hefur hér skapast löng og mikil reynsla og gríðarleg þekking hefur safnast saman á Húsavík. Hvalaskoðunarbátarnir hafa frá fyrstu tíð siglt margar ferðir á dag og nú er boðið upp á hvalaskoðun frá mars og út nóvember svo framarlega sem veður leyfir.

Í aldanna rás hefur jarðhitinn norðan við Húsavík verið þekktur og nýttur til baða og þvotta. Þegar borað var eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða upp úr miðri síðustu öld kom upp vatn sem reyndist vera heitur sjór og nýttist ekki til húshitunar vegna þess að sjórinn var of steinefnaríkur. Salt vatn af Húsavíkurhöfða hefur til margra ára verið nýtt til heilsubaða með ágætum árangri fyrir fólk með húðsjúkdóma og var sjónum dælt í gamalt ostakar á Húsavíkurhöfða. 

GeoSea sjóböðin eru staðsett á Húsavíkurhöfða og nýtur þú útsýnis yfir fjallgarðinn í vestri, Skjálfandaflóann fyrir neðan klettana og sjálfan Norður-heimskautsbauginn við sjóndeildarhring. Almenningssundlaugar má finna í hjarta Húsavíkur, tjaldsvæðinu Heiðarbæ og einnig í Öxarfirði.

Náttúra

Frá Húsavík er stutt í nokkrar helstu náttúruperlur á Norðausturlandi, svo sem Mývatn og Ásbyrgi. Í næsta nágrenni við bæinn er einnig falleg náttúra sem vert er að gefa sér tíma til að skoða.
Sunnan við bæinn er er Reykjahverfi, sem einnig tilheyrir Norðurþingi, og norðan Húsavíkur er Tjörnes.

Á síðustu árum hafa gamlar gönguleiðir verið kortlagðar og sumar merktar. umar leiðirnar eru stuttar, aðrar lengri og erfiðari. Landslagið er mismunandi og náttúran síbreytileg. Möguleikarnir eru óendanlega margir.

Allir vilja halda góðri heilsu og lifa góðu lífi. Undirstaða vellíðunar og langlífis er holl útivist og góð hreyfing. Fátt er betra og óvíða gefst betra tækifæri til að njóta fjölbreyttrar útivistar í fögru umhverfi en í Þingeyjarsýslu.

Víða með ströndinni eru skemmtilegar aðstæður fyrir kajakaróður. Um veturinn er hér frábært gönguskíðaland og oft hægt að ganga langt fram á vor. Ásamt því má finna skíðasvæði, golfvöll, folf, strandblaksvöll, jógastúdíó, fjallahjólaferðir og margt fleira. 

Á Húsavík og nágrenni eru fjölmörg söfn og fræðasetur sem mörg hver hafa vakið verðskuldaða athygli bæði innanlands og erlendis.

Í hjarta bæjarins má finna þrjú söfn. Hvalasafnið sem gefur einstaka innsýn inn í líf og lifnaðarhætti hvala, hvalveiðar og nyt fyrr á öldum; Könnunarsögusafnið (The Exploration Museum) er safn um sögu lands og geimkönnunar og  Safnahúsið sem hýsir glæsilega sjóminjasýningu sem sýnir þróun útgerðar í Þingeyjarsýslu.

Rétt fyrir utan Húsavík er boðið upp á hestaferðir fyrir reynda jafnt sem óreynda. Boðið er upp á stutta útreiðartúra sem eru um 1 til 2 klukkustundir og langa túra sem geta varað allt að 10 dögum. 

Reiðleiðirnar liggja meðfram ströndum, til fjalla og um fornar söguslóðir. Útivist á hestbaki í ósnortinni náttúrunni er heillandi og eftirminnileg leið til þess að kynnast landinu okkar. Við hvetjum þig til að kynna þér það sem í boði er, hvort sem þú kemur gagngert til þess að fara í reiðtúr eða langar til að bregða þér á bak dagstund.

Húsavík er frábær stoppistaður fyrir fuglaáhugamenn. Það gerir nálægðin við hið fjölbreytta landslag- og svæði sem tryggir góða yfirferð á drjúgum hluta fuglastofns Íslands. 

Stutt gönguleið er frá fjöruláglendinu og að svokölluðum Húsavíkurhöfða þar sem bæjarvitinn stendur. Klettarnir sem liggja meðfram strandlínunni eru býsna háir og hafa að geyma töluvert fuglalíf. Dæmigerðir strandfuglar sem sjá má að sumri til á þessarri göngu eru fýlar, ritur, svartbakur, heiðlóur og kríur.

Það eru alls konar bátsferðir í boði frá Húsavík, þar á meðal eru kajakferðir. Það er frábær leið til að njóta Skjálfandaflóans. 

Skipulagðar ferðir taka um það bil 2 klukkustundir. 


2.300


Íbúafjöldi

23


Hvalategundir í íslensku lögsögunni

2


Náttúrulaugar og sundlaugar á Húsavík

473


Húsavíkurfjall (hæð metrar)

Veður & færð

VEÐUR
Það er góð vísa og ekki of oft kveðin að skoða skuli veðurspá ítarlega áður en lagt er af stað í ferðalag. Þrátt fyrir að Ísland sé ekki mjög stórt getur veðrið verið gríðarlega misjafnt á landinu og því afar mikilvægt að hafa varann á áður en lagt er af stað í langferð. Staðarspá fyrir Húsavík og Norðurland eystra má finna hér. 
FÆRÐ VEGA
Það er ekki síður mikilvægt að fylgjast vel með færð á vegum, enda getur hún verið býsna misjöfn er keyrt er um heiðar og láglendi í senn. Gott er að hafa hugfast að ferðast með eins miklu öryggi og hægt er miðað við aðstæður.
UPPLÝSINGAMIÐSTÖÐ
Það er ekki rekin upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn á Húsavík. Hins vegar, ef spurningar vakna varðandi afþreyingu eða þjónustu á Húsavík er hægt að hafa samband við Visit Húsavík gegnum tölvupóst eða samfélagsmiðla og við reynum að svara eftir bestu getu. 
Share by: